Ef þú ert íslendingur, þá ertu líklega orðinn leið(ur) á þessu veðri. Veðurstofa tilkynnir nýjan storm þriðja hvern dag og okkur í Dohop finnst þetta bara orðið ágætt. En hvernig væri að hætta að horfa með örvæntingu út um gluggann og láta sig dreyma um betra veður í smá stund?
Við skulum skoða þær tíu borgir þar sem veðrið er best í heiminum og ímynda okkur að við séum þar núna.
10. Manjimup – Ástralía
Þessi paradís í suðvesturhorni Ástralíu er frekar einöngruð, en þeim mun betra væri þá að vera þarna. Stöðugur meðalhiti um 27° í febrúar og vetur þar sem hitinn fer sjaldan niður fyrir 14° mundi gera lífið mjög ánægjulegt. Við Íslendingar kunnum að meta óspillta náttúru og það er nóg af henni hérna í Manjimup héraði í Ástralíu.
![Manjimup - Ástralía]()
9. Cape Town – Suður Afríka
Cape Town er staðsett á suðvesturhorni Suður Afríku, þar sem Suður-Atlantshaf og Indlandshaf mætast. Kaldasti mánuðurinn er um 17° að meðaltali en sá heitasti þægilegar 27° með nóg af sól. Cape Town er þekkt fyrir gullnar strendur, miklar vínekrur, og Table Mountain þjóðgarðinn. Það er mjög auðvelt að verða ástfanginn af þessari borg og veðrið á þar stóran þátt.
![Cape Town, Suður Afríka]()
8. Adelaide – Ástralía
Adelaide er staðsett í Suður-Ástralíu og nýtur góðs af hafstraumum Indlandshafsins. Í febrúar er meðalhiti um 29° en veturnir verða ekki kaldari en 15° að meðaltali. Farðu þangað einhverntíman í febrúar-maí, og þú sleppur við mestu rigninguna. Það er ekki bara góða veðrið sem heillar við þessa borg, því hún er líka mjög menningarleg, fáguð, og býður upp á mikla útivistarmöguleika.
![Adelaide - Ástralía]()
7. San Diego – Bandaríkin
Strandarsvæðið við Sand Diego er vinsæll áfangastaður á meðal strandarunnenda. Heilt yfir árið er meðalhiti um 21° og það verður ekki kaldara en um 18° í desember, kaldasta mánuði ársins. Það er ekki verra að aðeins um 25 sm. af úrkomu fellur yfir allt árið á þessu svæði, þannig þú getur geymt regnhlífina heima. Þetta er eina borgin á þessum lista sem er staðsett í Bandaríkjunum, en það má segja margt um kosti þess ágæta lands. Komdu þér vel fyrir á ströndinni, spjallaðu við heimafólkið, og skelltu þér á brimbretti.
![San Diego Strönd]()
6. Lissabon – Portúgal
28° meðalhiti á sumrin og 21° yfir allt árið er fullkomið hitastig til þess að uppgötva allt það sem Lissabon hefur uppá að bjóða. Þetta er sannkallaður gullmoli Portúgals og er þekkt fyrir sínar stórfenglegu dómkirkjur, hæðótt landslag, þröng og litrík stræti, og ríka menningu og sögu. Þessi einstaka borg er líka þekkt fyrir fjörugt næturlíf, sem við íslendingar könnumst ágætlega við. Lissabon sér bláan himinn og mikið sólskin um 260 daga ársins, og þessvegna ágætt að pakka sólgleraugunum með.
![Lisbon - Portúgal]()
5. Barcelona – Spánn
Það kemur eflaust ekki á óvart að Spánn sé á þessum lista, en fjölmargir Íslendingar heimsækja þetta sólríka land ár hvert. Við erum ekki eina þjóðin sem þykir gaman að heimsækja Barcelona, því borgin er einn vinsælasti áfangastaður Evrópu. Líkt og Lissabon er Barcelona þekkt fyrir ríka menningu, söfn, byggingarlist, myndlist, og sögu sína. Hvort sem þú vilt bara vera á ströndinni eða kynnast öllu öðru sem borgin hefur uppá að bjóða, þá er Barcelona með fullkomið veðurfar í það.
![Barcelona - Spánn]()
4. Sassari – Sardinía/Ítalía
Það eina sem þessi eyja á sameiginlegt með Íslandi er hugsanlega hlutfallslegur fjöldi kinda. Allt annað er mjög frábrugðið Íslenskri náttúru og þar má nefna hvítar strendur, mikla sól, og vingjarnlegt veðurfar. Ef þú ímyndar þér þína fullkomnu strönd, þá ert þú líklega að hugsa um strendurnar í Sassari. Þetta svæði er líka þekkt fyrir fjalllendi sem er tilvalið í gönguferðir, frábæran mat, og auðvitað gott veður. Meðalhiti ársins er um 19° en það fer allt upp í 28° á sumrin með mjög lítilli úrkomu.
![Assari, Sardinía]()
3. Casablanca – Marokkó
Svalur blær frá Atlantshafinu dregur úr hitanum í Casablanca og sér til þess að þar verði ekki of heitt. Í heitasta mánuði ársins, ágúst, er meðalhiti um 27° en í kaldasta mánuðinum, janúar, er meðalhitinn um 17°. Þessi borg er mjög heimsborgaraleg og er í raun hjarta Marókko, iðandi af lífi, miklum iðnaði, og menningu. Casablanca er mun frjálslyndari en aðrir hlutar Marokkó og hefur innleitt mikið af vestrænum siðum. Það er vel þess virði að eyða smá tíma í Casablanca.
![Casablanca - Marokkó]()
2. Las Palmas – Kanaríeyjar
Íslendingar kannast ágætlega við kosti Kanaríeyja. Las Palmas, stærsta borg Kanaríeyja, býður upp á ósvikna spænska upplifun og veðrið er þar engin undantekning. Hitastigið ráfar um á þægilegu bili allt árið en meðalhitinn er um 24°. Í heitustu mánuðum ársins fer meðaltalið að færast nær 28° og úrkoman er nánast engin á þessu svæði. Í Las Palmas er lítill vindur, hreint loft, og mikil sól. Það er því óhætt að segja að þessi borg kemst nálægt því að bjóða upp á fullkomið veður.
![Las Palmas - Kanaríeyjar]()
1. Viña del Mar – Síle
Það kemur kannski á óvart að borgin Viña del Mar í Síle sé með besta veður í heimi. En þegar við skoðum þessa paradís í Suður Ameríku aðeins betur kemur í ljós að hitastigið er ótrúlega stöðugt. Meðalhiti yfir árið er um 19° þar sem meðalhitinn yfir sumarið er um 24° en 15° yfir köldustu mánuðina. Þessi staður er þekktur fyrir silkimjúkar hvítar strendur, gott veður, fallega garða, og pálmatrén. Líkt og Cape Town er Viña del Mar þekkt fyrir fallegar vínekrur, en nafn borgarinnar þýðir einfaldlega “vínekra við hafið”. Ef þú ert að leita að borg þar sem veðrið er hvað þægilegast, þá er þetta borgin fyrir þig. Hérna er lítill vindur, þægilegt rakastig (í kringum 50%), þægilegt og stöðugt hitastig, og mikið af sól.
![Viña del Mar - Síle]()
Í vali á þessum stöðum er tekið tillit til margra þátta, eins og hitastig og breytileika hitastigs, rakastig, úrkomu, sólskin/skýjahulu, ofl. Þetta er sem sagt listi yfir þá staði sem eiga að vera hvað “fullkomnastir” hvað veðurfar varðar.
Hvert mundir þú helst vilja fara?
heimild
The post Komin með leið á Íslenska veðrinu? 10 borgir þar sem er alltaf gott veður appeared first on Dohop - Ferðalög og fleira.